ökunám

Ökuskóli 1 og 2

Þegar verklegt nám hefst er byrjað á Ökuskóla 1 samhliða fyrstu verklegu tímunum. Hægt er að taka Ökuskólann í stofu, til dæmis í Ökuskólanum í Mjódd, eða á netinu á Netokuskolinn.is. Ökuskóla 2 er best að taka um það bil tveimur mánuðum fyrir bílprófið, en bóklega prófið má taka þegar það vantar tvo mánuði í 17 ára afmælisdaginn. Venjulega þarf að taka 7-10 tíma fyrir Æfingaakstur.

bílatímar

Verklegt nám hefst samhliða námi í ökuskóla. Einnig þarf að sækja um ökuskírteini hjá Sýslumanni í Kópavogi við upphaf náms, og getur ökukennarinn þinn aðstoðað þig við það. Fyrsti tíminn er venjulega tekinn á svæði þar sem lítið er um umferð, til dæmis á auðu bílaplani eða þess háttar og farið út í umferð um leið og ökuneminn er tilbúinn til þess. Lögð er áhersla á að ná sem flestum þáttum námsins fyrir æfingaakstur til að gera ökunemann tilbúinn undir hann.

akstursmat

Aksturmat er nauðsynlegt svo hægt sé að sækja um fullnaðarskírteini. Þegar að búið er að útskrifa ökunemann með verklegu bílprófi fær hann afhent bráðabirgðaökuskírteini.  Það gildir í 3 ár en ef hinn nýútskrifaði bílstjóri fær engan refsipunkt á fyrstu 12 mánuðunum má taka akstursmat strax. Gæta þarf þess að endurnýja á réttum tíma því að ef viðkomandi gleymir sér og meira en tvö ár líða fram yfir gildistíma bráðabirgðaskírteinis þarf viðkomandi að endurtaka verklega bílprófið.

æfingaakstur

Æfingaakstur getur farið fram eftir að ökuskóla 1 er lokið og 7-10 ökutímar hafa farið fram. Sækja þarf um ökuskírteini til þess að hægt sé að sækja um æfingaakstur, en sótt er um þetta tvennt hjá Sýslumanninum í Kópavogi, Hlíðarsmára 1. Æfingaakstur má fara fram á bæði beinskiptan og sjálfskiptan bíl og gott getur verið að byrja æfingaakstur á sjálfskiptan bíl. Þannig minnkar álag á nemann í upphafi æfingaaksturs og leiðbeinendur læra að treysta ökunemanum betur. Ef hægt er að koma við æfingaakstri á beinskiptan bíl í framhaldinu er mælt með því en það er ekki nauðsynlegt. Meira máli skiptir að nota æfingaaksturinn vel og keyra að lágmarki 2-3 sinnum í viku.

ökuskóli 3

Til að taka Ökuskóla 3 þarf nemandinn að hafa lokið 12 verklegum tímum og ökuskóla 1 og 2. Ökuskóli 3 er kennsla í ökugerði og þar fær nemandinn að upplifa hvað gerist þegar bíll skrikar til á vegi, en við aðstæður sem ekki eru hættulegar. Einnig fer nemandinn í svokallað forvarnarhús þar sem hann prófar virkni öryggisbelta í sérstökum veltibíl og sleða, auk fleiri æfinga sem sýna hversu hættulegt getur verið að blanda saman akstri og áfengi eða notkun farsíma.

ökuprófin

Til að þreyta þóklegt próf þarf nemandinn að hafa lokið ökuskóla 1 og 2 og 14 verklegum kennslustundum, en það nægir að 12 þeirra séu hjá ökukennara ef viðkomandi hefur einnig lokið ökuskóla 3 því þar fær nemandinn tvær verklegar kennslustundir í viðbót. Bóklegt próf er tvískipt, og má nemandinn aðeins fá tvær villur í fyrri hluta prófsins. Leyfðar eru fimm villur í seinni hluta en ef nemandinn fer villulaust í gegnum fyrri hluta prófsins má hann fá sjö villur í seinni hlutanum. Verklegt próf má fyrst panta þegar búið er að ná bóklegu prófi og venjulega þarf nokkra verklega tíma til að undirbúa það. Verklegt próf byrjar á munnlegu prófi um bílinn sjálfan og þarf að ná þeim hluta að lágmarki með 60% árangri til að halda áfram í verklega prófið.

BÓKA TÍMA →

netfang

njall@adalbraut.is

sími

898 3223

heimilisfang

Silungakvísl 4, 110 Reykjavík

AÐALBRAUT

fylgdu okkur

lærðu umferðarmerkin